7 mar. 2000Síðasta umferð EPSON-deildarinnar fer fram á fimmtudagskvöld. Þá verður hart barist um deildarmeistarartitilinn, en þrjú félög eiga möguleika á titlinum. Njarðvíkingum, sem standa best að vígi í deildinni, dugir sigur gegn Keflavík á útivelli og þá er titillinn þeirra. Fari hins vegar svo að Njarðvíkingar tapi, eiga Grindavík og Haukar möguleika á titlinum. Grindavík þarf þá að sigra Tindastól og þá er titillinn þeirra. Skiptir þá ekki máli hvernig leikur Hauka og KFÍ fer, þar sem UMFG hefur betri stöðu verði þessi þrjú félög jöfn og einnig betri stöðu í innbyrðisleikjum gegn Njarðvík, verði þau félög tvö jöfn. Haukar geta orðið deildarmeistarar ef bæði Njarðvík og Grindavík tapa, þar sem þeir hafa betri stöðu í innbyrðisleikjum gegn Njarðvík. Þá verður leikur Skallagríms og Hamars í Borgarnesi úrslitaleikur um hvort liðið kemst sem áttunda lið inn í úrlsitakeppnina, Þór Ak. tryggði sig inn í úrslitin með sigri á Tindastóli í gærkvöldi. Leikir Þórs gegn ÍA og KR gegn Snæfelli skipta engu máli þar sem ÍA og Snæfell eru þegar fallin og KR-ingar eru öruggir með 5. sætið í deildinni.