20 sep. 2016

Á næstunni mun KKÍ fara af stað með unglingadómaranámskeið fyrir leikmenn 10. flokks. Námskeiðin munu fara fram innanbúðar hjá hverju félagi, eftir því sem hægt er, og verður hvert námskeið fyrir bæði stúlkur og drengi. Er námskeiðið aðildarfélögum að kostnaðarlausu.

 

Námskeiðin standa öllum félögum til boða, og eru þau eindregið hvött til að taka þátt. Þannig næst smám saman það markmið dómaranefndar að allir leikir í öllum flokkum verði dæmdir af dómurum sem hafa til þess réttindi, sem hlýtur að vera hagur allra félaga.

 

Í stuttu máli er skipulag námskeiðs hugsað þannig:

* Kennslustofa: 2-3 klst. – Yfirferð á grunnatriðum leikreglna, staðsetning og hreyfing á leikvelli, samskipti og merkjagjöf.

* Íþróttasalur: 1 klst. – Verkleg framkvæmd á leikvelli, m.a. staðsetningar, merkjagjöf og að blása í flautuna.

 

Æskilegt er að þátttakendur séu klæddir íþróttafötum og séu tilbúnir að hlaupa í verklega hlutanum. Þátttakendur munu skiptast á að vera í hlutverki leikmanna og dómara.

 

Að loknu unglingadómaranámskeiði öðlast þátttakendur réttindi til að dæma í öllum aldursflokkum fyrir neðan sig.

 

Leiðbeinendur á námskeiðunum verða körfuknattleiksdómarar sem hafa margra ára reynslu.

 

Þau félög sem vilja fá til sín námskeið vinsamlega senda tölvupóst á kki@kki.is.