21 nóv. 2016

Stjórn KKÍ hefur gert nýjan samning við Ívar Ásgrímsson, þjálfara A-landsliðs kvenna, til næstu tveggja ára, eða fram yfir EuroBasket 2019.

Auk þess að vera aðalþjálfari liðsins mun Ívar taka þátt í að móta enn frekar stefnu A-landsliðsins og markmiðasetningu til næstu ára í samráði við stjórn og afreksnefnd KKÍ. 

 

Ívar hefur verið þjálfari liðsins síðastliðin tvö ár og rennur núverandi samningur hans út núna í lok ársins, eða þegar núverandi verkefni liðsins er að ljúka. Landsliðið er um þessar mundir að leika í undankeppni EM, EuroBasket 2017, sem klárast á miðvikudaginn kemur á heimavelli gegn Portúgal. Undankeppnin hófst fyrir rúmu ári síðan, og þá eftir nýju keppnisfyrirkomulagi FIBA Europe hjá konunum. 

 

Töluverð endurnýjun á sér stað í A-liði kvenna og eru bjartir tímar framundan. Margir efnilegir leikmenn eru að taka sín fyrstu skref með liðinu sem og leikmenn sem hafa verið í háskólanámi í Bandríkjunum undanfarið, og ekki geta tekið þátt í landsliðsverkefnum á meðan, eru að klára nám, og munu geta tekið þátt í komandi verkefnum.

 

Auk þess eru margir núverandi reynslumiklir leikmenn í liðinu sem verða áfram í lykilhlutverki og því útlit fyrir spennandi tíma hjá kvennaliðinu á næstu árum með blöndu af ungum leikmönnum í bland við reynslumeiri leikmenn.

Stefnan er að A-landslið kvenna komist á lokamót EM, EuroBasket, í síðasta lagi árið 2021. 

Jafnframt verður farið í vinnu með félögunum í að efla starf meistaraflokka félaganna á landinu og mun Ívar stýra þeirri vinnu hjá KKÍ.

 

Verkefni framundan eru Smáþjóðaleikar í maí á næsta ári, æfinga- og vináttulandsleikir í sumar og í nóvember hefst undankeppnin á ný fyrir EuroBasket 2019.