8 des. 2016

Ísland leikur í A-riðli á lokamóti EM, EuroBasket 2017, sem fram fer í Helsinki dagana 31. ágúst til 6. september næsta haust.

Liðið sem drógst í riðilinn úr 2. styrkleikaflokki er lið Grikklands. Leikur Íslands og Grikkja á EM fer fram á fyrsta leikdegi keppninnar, fimmtudaginn 31. ágúst.

Ísland hefur þrívegis mætt Grikkjum og hefur Grikkland unnið í öll skiptin (0% sigurhlutfall Íslands). Leikirnir fóru fram árin 1975, 1987 og 1992.

Grikkir hafa verið í áratugi eitt af stóru liðunum í evrópskum körfubolta. Þeir urðu síðast Evrópumeistarar árið 2005 en síðan þá hafa þeir ekki náð eins langt og þeir hefðu viljað og ekki unnið til verðlauna á stórmótum. Þeir hafa þó lent í 6. sæti árið 2011 og 5. sæti árið 2015 á EM. Liðið hefur verið að sækja í sig veðrir að undanförnu og lék til að mynda ein helsta vonarstjarna NBA-deildarinnar, Giannis Antetokounmpo, leikmaður Milwaukee Bucks, með liðinu á Evrópumótinu 2015, auk annara gamalkunna leikmanna í bland við yngri leikmenn. 

 

Þar má nefna leikmenn eins og Vassilis Spanoulis og Georgios Printezis, Nick Calathers og Ioannis Bourousis, auk Stratos Perperoglou en þeir leika með stórliðum Olympiacos, Panathinaikos og Barcelona og hafa verið leikmenn með landsliðinu undanfarin ár. Yngri leikmenn sem voru í leikmannahóp liðsins á síðasta stórmóti má nefna tvo leikmenn úr NBA deildinni, þá Kostas Koufos, leikmann Sacramento Kings og Kostas Papanikolaou, leikmann Denver Nuggets sem og eldri bróðir Giannis, Thanasis Antetokounmpo, sem leikur með New York Knicks. Þá leikur hinn 19 ára gamli miðherji Georgios Papagiannis með Sacramento Kings í NBA deildinni en hann er 221 cm hár.

Leikmannalisti liðsins frá undankeppni ÓL 2016 í Ríó má sjá hérna.

 

Miðasala á EM fer fram á tix.is en nú þegar hafa rúmlega 1.100 íslendingar keypt sér miðapakka til Finnlands sem munu styðja við liðið og eru enn til miðar. KKÍ hvetur alla sem áhuga hafa á að fara til Helsinki að kaupa miða í tíma til að tryggja sér bestu sætin og vera á „íslendingasvæðinu“ á hverjum leik og til að kaupa miða á besta verðinu áður en það verður uppselt í haust.

 

Dagskrá EuroBasket · A-riðill í Helsinki

31. ágúst - Ísland-Grikkland

1. september - Frídagur í riðlinum

2. september - Pólland-Ísland + landsleikur í fótbolta: Finnland-Ísland í undankeppni HM

3. september - Frakkland-Ísland

4. september - Frídagur í riðlinum

5. september - Ísland-Slóvenía

6. september · Finnland-Ísland

Liðskynningar fyrir EM í Finnlandi · Mótherjar Íslands
Frakkland
Grikkland
Finnland
Slóvenía