19 ágú. 2017

A landslið karla mætti Ungverjum í Székesfehérvár í dag og tapaði 81-66.

Íslenska liðið byrjaði mjög vel og fór Martin Hermannsson á kostum, skoraði fyrstu 9 stigin og stal boltanum ítrekað. Leikurinn var þó í járnum fram yfir miðjan annan leikhluta, Ungverjar leiddu 23-22 eftir fyrsta leikhluta og um miðjan annan leikhlutann var staðan 28-26. Þá náðu heimamenn yfirhöndinni í leiknum og voru 10 stigum yfir í hálfleik, 44-34. Seinni hálfleikur gekk svo brösulega hjá þeim bláklæddu og Ungverjarnir juku forystuna hægt og bítandi, komust 18 stigum yfir og eftir þriðja voru þeir með 15 stiga forystu. Í þeim fjórða kom Brynjar Björnsson sjóðandi heitur og hitti úr 4 af 5 þriggja stiga skotum sínum. Lokatölur eins og áður segir 81-66.

Brynjar Björnsson var stigahæstur með 14 stig, Martin Hermannsson skoraði 13, Haukur Pálsson 13, Hlynur Bæringsson 10, Logi Gunnarsson 5, Tryggvi Hlinason 5, Kristófer Acox 3, Elvar Friðriksson 2, Ægir Steinarsson 1. Hörður Axel Vilhjálmsson og Pavel Ermolinskij voru án stiga.

Liðin mætast aftur á morgun klukkan 12 að íslenskum tíma, 14 í Ungverjalandi.