19 des. 2017

KKÍ og HR hafa gert með sér samstarfssamning sem snýr að kvennalandsliðum KKÍ. Þá mun HR sjá um mælingar á nokkrum landsliðum, með áherslu á A-landslið kvenna, og munu niðurstöður þeirra nýtast báðum aðilum í kjölfarið. 

Samstarfið felur í sér að meistaranámsnemi í íþróttafræðum í HR mun gera yfirgripsmikla rannsókn á landsliðum KKÍ og verða mælingar og niðurstöður nýttar í meistararitgerð í íþróttavísindum og þjálfun. Rannsóknin verður gerð í nánu samstarfi við þjálfarateymi landsliðs kvenna og styrktarþjálfara liðsins og miðast við mælingar tvisvar til fjórum sinnum á ári næstu tvö árin.

Afreksstjóri, þjálfari og styrktarþjálfari KKÍ geta þá nýtt niðurstöðurnar til að bæta þá þætti hjá leikmönnum sem þurfa styrkingar við og bent félögum leikmannanna á  hvernig haga megi þjálfun.

 

Þetta er fyrsti samningurinn sem KKÍ gerir gagngert til mælinga á landsliðum sínum og mun byrja á mælingum á kvennaliðum sínum.

 

Það var Hafrún Kristjánsdóttir, frá íþróttafræðisviði HR, Kristinn Geir Pálsson, Afreksstjóri KKÍ og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, sem skrifuðu undir samtarfssamninginn á dögunum.