15 mar. 2018Í kvöld er komið að fyrsta leiknum í úrslitakeppninni í 1. deild karla þegar liðin sem höfnuðu í 2.-5. sæti munu leika til úrslita um eitt laust sæti í Domino's deildinni að ári. Skallagrímur vann deildarkeppnina í ár og tryggði sér þar með sæti í Domino's deildinni á leiktímabilinu 2018-2019. Tvö lið fara upp um deild og það lið sem sigrar úrslitakeppnina fylgir Skallagrím upp um deild.

Leikur kvöldsins
Í kvöld leikur Breiðablik, sem lenti í 3. sæti í deildinni, gegn liðinu í 4. sæti, sem er lið Vestra og fer fyrsti leikur liðanna fram í Smáranum í Kópavogi kl. 19:15 í kvöld. 

Á morgun mætast svo í hinni undanúrslitaviðureigninni lið Hamars, sem lenti í 2. sæti og Snæfells, sem lenti í 5. sæti, í Hveragerði í sínum fyrsta leik.

Fyrirkomulag úrslitakeppni 1. deilda
Þau lið sem fyrr vinna þrjá leiki í undanúrslitum, þar sem leikið er heima og að heiman til skiptis, komast í lokaúrslitin þar sem sami háttur er á, vinna þarf þrjá leiki til að vinna viðureignina og þar með sæti í Úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

#korfubolti