29 apr. 2018KR varð í gær íslandsmeistari Domino's deildar karla 2017-2018 eftir sigur á Tindastól í DHL-höllinni í Vesturbænum. Staðan fyrir leikinn í gær í einvíginu var 2-1 og var fullt út úr dyrum löngu fyrir leik og góð stemning. Leiknum lauk með 89:73 sigri KR og þar með var titilinn í höfn. 

Þetta er í 5. sinn í röð sem KR verður íslandsmeistari sem er met í sögu úrslitakeppninnar eftir að núverandi fyrirkomulag var tekið upp árið 1984, en gamla metið var einnig í eigu KR (fjórum sinnum). Frá upphafi eða árið 1951 var þetta 17. íslandsmeistaratitill KR í íslandsmóti meistaraflokks karla í körfuknattleik.

Kristófer Acox var svo í leikslok útnefndur besti leikmaður úrslitakeppninnar en hann var með 15.5 stig að meðaltali, 10.5 fráköst og samtals 24.5 framlagsstig.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, jafnaði met þjálfara yfir flesta titla, fimm talsins, í sögu úrslitakeppninnar. 

Flestir Íslandsmeistarartitlar eftir úrslitakeppni:
11 · Njarðvík (1984, ‘85, ‘86, ‘87, 1991, ‘94, ‘95, ‘98, 2001, 2002, 2006)
10 · KR (1990, 2000, 2007, 2009, 2011, 2014, 2015, 2016, 2017, 2018)
9 · Keflavík (1989, 1992, 1993, 1997, 1999, 2003, 2004, 2005, 2008)
3 · Grindavík (1996, 2012, 2013)
1 · Haukar (1988) 
1 · Snæfell (2010)

KKÍ óskar KR til hamingju með titilinn!

#korfubolti