20 sep. 2018

Um leið og keppnistímabilið fer að hefjast á næstunni hér heima þá er það nú þegar hafið erlendis og mun verkefnum FIBA dómara og FIBA eftirlitsmanna okkar aukast á næstunni.

Í landsleikjaglugganum í síðustu viku var Rúnar Birgir Gíslason eftirlitsmaður í Kaupmannahöfn í spennandi landsleik milli Danmerkur og Svíþjóðar í forkeppni EuroBasket 2021, en Rúnar Birgir er á sínu öðru ári sem virkur eftirlitsmaður FIBA. Fyrir eigum við íslendingar einnig Pétur Hrafn Sigurðsson sem eftirlitsmann FIBA og hefur hann verið við störf undanfarin ár.

Í dag fer fram merkilegur leikur í Kongsberg í Noregi, leikur noregsmeistara Kongsberg Miners gegn meisturum Úkraínu Cherkaski Mavpy, sem mætast í fyrri leik sínum í forkeppni FIBA Europe Cup. Hann er merkilegur fyrir þær sakir að tveir íslendingar verða við störf í leik á vegum FIBA og að þetta er fyrsti evrópuleikurinn hjá norsku liði í 16 ár. 

Fyrsti leikurinn sem Ísland átti tvo fulltrúa að störfum í sama leik var leikur í janúar þegar Sigmundur Már Herbertsson og Rúnar Birgir voru við störf í Riga í Lettlandi.

Í leiknum í dag mun Rúnar Birgir vera eftirlitsmaður og Davíð Tómas Tómasson dæma, en hann er einn af FIBA dómurum okkar íslendinga. Meðdómarar Davíðs Tómasar í kvöld verða þeir Marek Maliszewski frá Póllandi og Chris Dodds frá Englandi.

KKÍ óskar þeim góðs gengis!

#korfubolti