9 apr. 2019Í kvöld fer fram fyrsti leikurinn í lokaúrslitunum í EuroCup þegar Valencia tekur á móti Alba Berlin frá Þýskalandi á Spáni. Þetta er fyrsti leikurinn í seríunni en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki verður EuroCup-meistari 2019.

Næsti leikur liðanna fer fram á föstudaginn í Berlín. Verði staðan 1-1 eftir tvo leiki verður leikið í Valencia að nýju í hreinum úrslitaleik á mánudaginn kemur 15. apríl.

Martin Hermannsson hefur farið mikinn með liði Alba Berlin í vetur og staðið sig frábærlega bæði í deild og í evrópukeppninni. Það verður því gaman að fylgjast með leiknum í kvöld og hvernig Martin og liðinu mun ganga gegn sterku liði Valencia.

Einn íslenskur leikmaður hefur áður leikið til úrslita og unnið EuroCup titilinn en það var árið 2005 þegar Jón Arnór Stefánsson lék með Dynamo Saint Petersburg frá Rússlandi.


Hér má sjá lifandi tölfræði frá leiknum á heimasíðu keppninnar: www.eurocupbasketball.com

#korfubolti