5 jún. 2019Í gær, þriðjudaginn 4. júní, kom góður hópur saman í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Tilefnið var að að KKÍ, ÍF og Errea afhentu börnum með sérþarfir sem hafa æft körfubolta í vetur landsliðsbúning merktan hverjum og einum ásamt landsliðs hettupeysu merkta ÍSLAND-KÖRFUBOLTI og var mikil ánægja hjá krökkunum með gjafirnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem krakkar með sérþarfir æfa skipulega körfubolta en þau hafa æft hjá Haukum að Ásvöllum í Ólafssal. Kristinn Jónasson og Thelma Þorbergsdóttir komu verkefninu af stað og hafa stýrt því með dugnaði sínum og áhuga.

Það voru 11 krakkar og 4 þjálfarar sem fengu afhenta landsliðsbúninga og peysur frá KKÍ, ÍF og Errea og sáu landsliðafólkið Hildur Björg Kjartansdóttir, Sylvía Rún Hálfdánardóttir og Dagur Kár Jónsson um að afhenda þeim fötin ásamt sem þau fengu Domino’s körfubolta með til að geta stundað áfram æfingar í sumarfríinu.

Það er von KKÍ og ÍF að verkefnið haldi áfram að vaxa og dafna og munum samböndin gera það sem þau geta til að styðja við þetta mikilvæga verkefni fyrir börn með sérþarfir en það er afar mikilvægt að börn með sérþarfir finni sig í íþróttum. Að sögn þjálfara hópsins hafa þau tekið gríðarlegum framförum í vetur og skemmt sér vel og er mikill hugur í hópnum að hefja æfingar að nýju í haust.

Allir sem áhuga hafa eru velkomnir að mæta og taka þátt í starfinu en í hópnum koma krakkar víðsvegar af til æfinga til dæmis frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

#korfubolti