26 nóv. 2020Ísland sigraði í dag lið Lúxemborgar í fyrri leik Íslands í þessum landsliðsglugga sem fram fer í Slóvakíu. Lokatölur 90:76 fyrir Ísland. 

Leikurinn fór hægt og rólega af stað en Lúxembog voru ávallt með nokkura stiga forskot og hálfleikstölur 34:38 fyrir Lúxemborg og ljóst að Ísland átti nóg inni bæði í sókn og vörn. Mótherjarnir byrjuðu á því að auka muninn mest upp í 8 stig. Eftir það kom frábær kafli hjá Íslandi leiddur af fyrirliðanum Herði Axel Vilhjálmssyni sem skoraði 7 stig í röð og kom liði sínu yfir. Eftir það hélt allt liðið áfram og leit aldrei til baka, Ísland leiddi mest með 19 stigum á tímabili en liðið spilaði góða vörn og hraðan sóknarbolta. Niðurstaðan 14 stiga sigur. 

Tryggvi Snær Hlinason var atkvæðamestur í kvöld, skoraði 17 stig og tók 11 fráköst. Jón Axel Guðmundsson var með 14 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Ægir Þór Steinarsson var með 13 stig og 5 stoðsendingar og Elvar Már Friðriksson var með 13 stig og 4 stoðsendingar og S. Arnar Björnsson setti 12 stig.