Reglugerð um aðgönguskíreini

1. Gerðir skírteina
Körfuknattleikssamband Íslands gefur út aðgönguskírteini, sem heimila ókeypis aðgang að körfuknattleiksleikjum. KKÍ skal halda skrá yfir útgefin aðgönguskírteini.

a) Aðgönguskírteini A, sem gildir fyrir tvo á alla leiki.
b) Aðgönguskírteini B, sem gildir fyrir einn á alla leiki.
c) Aðgönguskírteini D, dómaraskírteini sem gildir fyrir einn á alla leiki.
d) Aðgönguskírteini F, fjölmiðlaskírteini sem gildir fyrir einn á alla leiki.
e) Aðgönguskírteini L, leikmannaskírteini sem gildir fyrir einn á alla deildarleiki í efstu deild karla og kvenna.
 
2. Rétthafar skírteina
a) Aðgönguskírteini A skal gefið út til tveggja ára til stjórnar KKÍ, fastanefnda KKÍ, áfrýjunardómstóls KKÍ, starfsmanna KKÍ, formanna körfuknattleiksdeilda, forseta og framkvæmdastjóra ÍSÍ, heiðurskrosshafa og gullmerkishafa KKÍ, fyrrverandi formanna KKÍ, samstarfsaðila KKÍ og þeirra er náð hafa 100 landsleikjum fyrir A-landslið karla og 75 landsleikjum fyrir A-landslið kvenna
b) Aðgönguskírteini B skal gefið út til stjórnarmanna og þjálfara í efstu deild karla, efstu deild kvenna, 1. deild karla og 1.deild kvenna skv. ákvörðun formannafundar. 
c) Aðgönguskírteini D skal gefið út til virkra dómara og eftirlitsdómara skv. ákvörðun dómaranefndar.
d) Aðgönguskírteini F skal gefið út til þeirra fjölmiðlamanna sem fjalla um íþróttir.
e) Aðgönguskírteini L skal gefið út til þeirra leikmanna sem spila í efstu deild karla og kvenna og gildir skírteinið eingöngu á venjulega deildarleiki efstu deildar karla og kvenna samkvæmt ákvöðrun formannafundar.
 
3. Notkun skírteina
Aðgönguskírteini gildir aðeins fyrir rétthafa þess. Aðeins skal gefa út eitt aðgönguskírteini á hvern einstakling. Starfsmenn í miðasölu geta óskað eftir að einstaklingar með aðgönuskírteini sýni skilríki með mynd þegar aðgönguskírteini er framvísað.
Misnotkun skírteinis getur haft í för með sér innköllun á því. Óheimilt er að gefa út önnur aðgönguskírteini, sem gilda um allt land, en um er getið í þessari reglugerð.

Þegar um bikarúrslit, lokaleiki í úrslitakeppnum og landsleiki er að ræða getur KKÍ krafist þess að rétthafar skírteina sæki aðgöngumiða gegn framvísun skírteinis á fyrirfram auglýstum tíma og gilda þá ekki aðgönguskírteinin sjálf á leikstað. Slíkt fyrirkomulag skal auglýst á heimasíðu KKÍ sem og í tölvupósti til félaga KKÍ.
 
4. Útgáfa
Skrifstofa KKÍ annast útgáfu aðgönguskírteina í umboði KKÍ. Félög skulu senda skrifstofu KKÍ nafnalista fyrir 15. september.

Breyting á stjórnarfundi 21. september 2010

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira