Í gær - þriðjudag - stóð Körfuknattleikssamband Íslands fyrir málþingi um átak sem verið er að ýta úr vör innan sambandsins - ári kvennakörfuknattleiks. Um er að ræða sameiginlegt átak aðildarþjóða Evrópska körfuknattleikssambandsins - FIBA Europe - og hófst átakið formlega á stjörnuleik kvenna í Evrópu í Pécs í Ungverjalandi þann 8. mars s.l., en lýkur með úrslitakeppni næstu Evrópukeppni kvennalandsliða – EuroBasket – í Chieti á Ítalíu í september 2007. Ákvað KKÍ þegar í stað að taka fullan þátt í verkefninu til eflingar körfuknattleiks kvenna á Íslandi – ekki bara með fjölgun leikmanna að leiðarljósi heldur ekki síður til að fjölga konum í öllum stigum stjórnkerfisins, þ.m.t. sem þjálfurum, dómurum og stjórnendum. Var Guðbjörg Norðfjörð, stjórnarmaður í KKÍ, margreyndur leikmaður með landsliði, og fyrrum þjálfari, fengin til þess að stýra verkefninu. Á málþinginu kynnti Guðbjörg metnaðarfulla dagskrá á komandi keppnistímabili, sem m.a. er ætlað að fela í sér flóru viðburða, funda og námskeiðshalds, til dæmis þjálfaranámskeið, dómaranámskeið og stjórnendanámskeið – allt sérstaklega fyrir konur. Með þessum aðgerðum hyggst KKÍ stefna að því að þróa stjórnskipulag hreyfingarinnar í þá átt að auka þátttöku kvenna á öllum þessum sviðum. Tveir gestafyrirlesarar heiðruðu fundinn með nærveru sinni. Annarsvegar var þar um að ræða Margréti Kristmannsdóttur formann Félags kvenna í atvinnurekstri sem kom með afar gagnleg sjónarmið á fundinn og blés sannarlega ferskleika í umræðuna. Þá hélt hinsvegar Adolf Ingi Erlingsson, formaður Samtaka íþróttafréttamanna, athyglisvert erindi um umfjöllun fjölmiðla um íþróttir kvenna, og ræddi ýmsar gagnlegar leiðir til úrbóta. Jafnrétti í íþróttahreyfingunni felur bæði í sér réttindi og skyldur. Með sama hætti og okkur ber skylda til þess að jafna stöðu kynjanna gagnvart aðstöðu og ytri skilyrðum til þátttöku í körfuknattleik, ber báðum kynjum skylda til að taka þátt í öllum sviðum starfseminnar. Það felur meðal annars í sér að stúlkur þurfa í auknum mæli að huga að því að taka að sér verkefni þar sem slíkt jafnræði skortir, svo sem við þjálfun, dómgæslu og stjórnunarstörf. Hér er aðgangurinn opinn og frjáls – ólíkt því sem kvartað hefur verið undan í atvinnulífinu – hér er um sjálfboðastörf að ræða þar sem öllum höndum á plóginn er fagnað, karlkyns jafnt sem kvenkyns. Að öðru leyti má á hinn bóginn segja að jafnrétti kynja í íþróttahreyfingunni sé ekki fortakslaust lögmál. Markmiðin felast fremur í því að skapa jafna aðstöðu sem eflir starfsemi í þágu beggja kynja. Til að ná slíkum markmiðum getur verið viðurkennd aðferð að beita vissum aðskilnaði kynjanna. Sérgreint ár kvennkörfuknattleiks er raunar dæmi um slíkt, en bestu dæmin eru samt auðvitað aðskilin keppni í karla- og kvennaflokkum flestra íþróttagreina, aðskilið val á íþróttamanni- og konu ársins o.s.frv. Ég hygg að þessi aðskilnaður sé almennt viðurkenndur sem tæki í þágu sameiginlegrar eflingar íþrótta bæði karla og kvenna. Körfuknattleikssamband Íslands hefur undanfarinn áratug unnið með markvissum hætti að jöfnun aðstöðu kynjanna. Fyrir 10 árum síðan má sem dæmi nefna að leikmenn A-landsliðs kvenna greiddu fyrir landsliðsferðir sínar að fullu. Slíkt teldist auðvitað óásættanlegt í dag. Smám saman jafnaðist aðstaða með fjölda landsleikja, ráðningu aðstoðarþjálfara, sjúkranuddara o.s.frv. Með þátttöku bæði U-18 og U-16 ára landsliða bæði pilta og stúlkna, bæði í Norðurlandamóti og Evrópukeppni má segja að sterk skilaboð um jafnrétti hafi verið send til yngri kynslóðarinnar, og hringnum hafi svo verið lokað með þátttöku A-landsliðs kvenna í Evrópukeppni landsliða – í fyrsta sinn í sögunni – á komandi hausti. Það er von mín og vissa að sú stjórn sem kjörin verður í KKÍ á komandi ársþingi í byrjun maí beri gæfa til að fylgja þessu máli eftir af heilindum og einurð. Koma svo stelpur…nú er lag. Ólafur Rafnsson, Formaður KKÍ.