15 okt. 2000Óðinn Ásgeirsson var hetja Þórsara sem sigruðu Íslandsmeistara KR í KR-húsinu í kvöld 78-79. Óðinn setti niður þriggja stiga skot þegar tvær sekúndur voru eftir af leiktímanum og var það í eina skiptið í leiknum sem norðanmenn komust yfir. KR-ingar voru 13 stigum yfir í leikhléi, 51-38 og forysta þeirra var 10 stig þegar fjórði leikhluti hófst. Sigur KR-inga virtist vera í höfn en Þórsarar neituðu að gefast upp. Þeir minnkuðu muninn jafnt og þétt og var það einkum góðum varnarleik að þakka. Þegar um tvær mínútur voru eftir minnkuðu gestirnir muninn í tvö stig. Munurinn var einnig tvö stig þegar Þórsarar lögðu af stað í síðustu sóknina. Eftir misheppnað körfuskot Þórs náðu KR-ingar boltanum, en misstu hann strax aftur. Sigurður Sigurðarson gaf boltann á Óðin sem átti ekki annars úrkosta en að skjóta þar sem leiktíminn var að renna út. Boltinn fór í körfuna og eins stigs sigur Þórs var í höfn. Fögnuður þeirra var gífurlegur, en vonbrigði KR-inga að sama skapi mikil. KR-ingar eru því enn án stiga í Epson-deildinni eins og KFÍ. UMFN vann góðan sigur á Hamri 96-71. Njarðvíkingar tryggðu sér sigurinn í þriðja leikhluta er þeir settu sjö þriggja stiga körfur, sem að sjálfsögðu er met. Liðin tvö sem voru taplaus fyrir leiki kvöldsins, UMFG og Keflavík mættust í Grindavík. Gestirnir fóru með sigur af hólmi 83-92 og tróna einir á toppi deildarinnar. Haukar unnu Skallagrím á Ásvöllum 95-75 og Tindastóll sigraði ÍR á Króknum 81-763. Fyrr í dag vann Valur sinn fyrsta sigur í deildinni er þeir lögðu KFÍ 92-82.