3 des. 2000Jón Arnar Ingvarsson átti stórleik gegn Grindvíkingum í kvöld þegar hann náði sinni fyrstu þrennu á ferlinum. Jón Arnar skoraði 22 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 14 fráköst í átta stiga sigri Hauka á Grindvíkingum, 81-73. Þetta er fyrsta þrennan sem íslenskur leikmaður nær frá því Örlygur Sturluson var með 18 stig, 12 fráköst og tíu stoðsendingar gegn Snæfelli þann 5. nóvember 1999 og sú þriðja sem næst í vetur. Mike Bargen skoraði 21 stig fyrir Hauka og tók níu fráköst, en í liði Grindavíkur var Páll Axel Vilbergsson langstigahæstur með 27 stig, þar af 15 úr þriggja stiga skotum. KFÍ lá heima gegn Tindastól, 88-98, þar sem fimm leikmenn skorðu yfir 20 stig. Ales Zianovic var með 27 stig og 12 fráköst, Dwayne Fontana skoraði 22 stig og Sveinn Blöndal var með 19 stig og 11 fráköst. Hjá gestunum var Svavar Birgisson stigahæstur með 28 stig á aðeins 27 mínútum, Kristinn Friðriksson kom næstur með 24 stig og Shawn Myers var með 21 stig, 15 fráköst, sex stolna bolta og fimm varin skot. Skallagrímur vann tiltölulega auðveldan sigur á ÍR, 89-71, í Borgarnesi þar sem Warren Peebles skoraði 35 stig, tók tíu fráköst og stal boltanum fimm sinnum fyrir heimamenn og Sigmar Egilsson var með 13 stig og 11 stoðsendingar. Cedrick Holmes var stigahæstur ÍR-inga með 21 stig og að auki 13 fráköst. Sigurður Þorvaldsson var með 14 stig og 13 fráköst. KR vann UMFN með 113 stigum gegn 94 og Ólafur Jón Ormsson var þeirra stigahæstur með 27 stig og auk þess sjö stolna bolta. Keith Vassell var með 24 stig og 10 fráköst og Magni Hafsteinsson og Jón Arnór Stefánsson voru með 19 stig hvor. Því miður höfum við enn ekki upplýsingar um stigaskor einstakra leikmanna Njarðvíkinga. Önnur úrslit urðu þessi: Hamar - Valur: 84-87 Þór - Keflavík: 98-104