21 okt. 2020

Fulltrúar almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins funduðu nú síðdegis með ÍSÍ, sérsamböndum þess, ÍBR, ÍBH, UMSK og fulltrúum fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Á fundinum var kynnt ákvörðun sviðsstjóra íþrótta og tómstundasviða sveitarfélaganna og almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að meistaraflokkar og afrekshópar/fólk geti hafið æfingar í mannvirkjum á vegum sveitarfélaganna. Hvert sveitarfélag ákveður hvenær starf getur hafist þar sem undirbúa þarf opnun í samstarfi við starfsfólk mannvirkjanna og í samræmi við strangar sóttvarnareglur ÍSÍ, sérsambandanna, reglugerðir heilbrigðisráðherra og fyrirmæli sóttvarnalæknis.

Þetta er afmarkað með þeim skilyrðum sem reglugerð heilbrigðisráðherra frá 19. október segir til um vegna íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að íþróttastarfsemi sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu milli fólks eða starfsemin krefst mikillar nálægðar eða þar sem notkun á sameiginlegum búnaði getur haft smithættu í för með sér óheimil. Íþróttamenn sem með þessu fá leyfi til æfinga gæti því vel að fjarlægðarmörkum sem eru 2 metrar og gæti einnig að almennum persónubundnum sóttvörnum. 

Íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar hefst ekki að svo stöddu og verður sú ákvörðun endurmetin í næstu viku í samstarfi við ÍSÍ, þar sem nauðsynlegt er að forðast blöndun milli hópa sem eru til staðar í skólastarfinu.  Takist að leysa úr því ætti ekkert að vera til fyrirstöðu að hefja það starf einnig. Sú vinna er í gangi.

ÍSÍ, sérsambönd og þau íþróttahéruð sem voru stödd á fundinum styðja þessa áætlun nefndarinnar og fagna því að unnt sé að hefja starf meistaraflokka og afrekshópa/fólks þó með takmörkunum sé. 

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:

„Það er ánægjuefni að sjá hversu þétt íþróttahreyfingin hefur staðið saman í þeim faraldri sem gengið hefur yfir landsmenn stóran hluta af þessu ári. Íþróttahreyfingin hefur tekið þá afstöðu að standa með sóttvarnayfirvöldum í baráttunni við veiruna en með góðu samstarfi við þau hefur verið unnt í gegnum þetta tímabil að finna leiðir til að minnka takmarkanir og auka möguleika til íþróttaiðkunar, þrátt fyrir faraldurinn. Ég fagna sérstaklega því skrefi að náðst hafi að koma af stað afreksstarfi á höfuðborgarsvæðinu og við vonumst til að annað íþróttastarf fylgi fljótlega í kjölfarið. Þá er sérstök ástæða, af þessu tilefni, til þess að þakka almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins ásamt sveitarfélögunum fyrir gott samstarf við úrlausn þessa verkefnis.“

Tilkynning almannavarna höfuðborgarsvæðisins