3 nóv. 2020

Framundan er landsleikjagluggi hjá landsliði kvenna í körfuknattleik sem er liður í undankeppni EM, EuroBasket Women’s 2021, og undirbýr liðið sig eftir eins og hægt er fyrir brottför. Eins og allir vita er æfingabann í augnablikinu sem gerir allan undirbúning erfiðari, en biðlað hefur verið til yfirvalda um undanþágu fyrir 11 leikmenn hér á landi til einstaklingsæfinga innandyra sem myndi hjálpa liðinu mikið.

Eina breytingu þurfti að gera á liðsskipan landsliðsins en Hildur Björg Kjartansdóttir, Val, er ennþá meidd og verður ekki leikfær þegar haldið verður út. Hún hefur verið að glíma við brot á þumalfingri, og hefur bataferlið verið hægara en vonir stóðu til. Í staðinn hefur Benedikt Guðmundsson þjálfari boðað Salbjörgu Rögnu Sævarsdóttur frá Keflavík inn í hópinn til að leysa leikstöðu Hildar Bjargar. Salbjörg Ragna á að baki sex landsleiki.

Eftirtaldir leikmenn skipa liðið:

Nafn · Félag (landsleikir)

Bríet Sif Hinriksdóttir · Haukar (2)

Dagbjört Dögg Karlsdóttir · Valur (4)

Eva Margrét Kristjánsdóttir · Haukar (Nýliði)

Guðbjörg Sverrisdóttir · Valur (20)

Hallveig Jónsdóttir · Valur (21)

Isabella Ósk Sigurðardóttir · Breiðablik (4)

Katla Rún Garðarsdóttir · Keflavík (Nýliði)

Lovísa Björt Henningsdóttir · Haukar (2)

Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Keflavík (6)

Sara Rún Hinriksdóttir · Leicester, England (19)

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · Skallagrímur (53)

Þóra Kristín Jónsdóttir · Haukar (17)

Anna Ingunn Svansdóttir · Keflavík (Nýliði)

Þjálfarar og fararteymi:

Þjálfari: Benedikt Guðmundsson

Aðstoðarþjálfarar: Halldór Karl Þórsson og Danielle Rodriguez

Sjúkraþjálfari: Sædís Magnúsdóttir

Fararstjóri: Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ

Sóttvanrarfulltrúi: Guðbjörg Elíasdóttir Norðfjörð, varaformaður KKÍ

Liðstjórn: Kristinn Geir Pálsson, afreksstjóri KKÍ

Um landsliðsgluggann:

Leikirnir fara fram í landsliðsglugga FIBA dagana 8.-15. nóvember og verða leiknir á Grikklandi í Heraklion á eyjunni Krít í öruggri „bubblu“ sem FIBA setur upp fyrir öll liðin í A-riðli undankeppninnar. Farið verður eftir ströngum reglum innan hennar með sóttvarnir. Leikirnir í undankeppninni hjá öllum liðum í nóvember áttu að vera heima og að heiman en hefur nú verið breytt fyrir alla riðla í einangraða leikstaði, líkt og NBA-deildinn vestanhafs gerði á Florída nú í haust. Íslenska liðið heldur utan 7. nóvember til Grikklands og æfir saman í „bubblunni“ en leikdagar verða 12. og 14. nóvember.

Þrír nýliðar eru í hópnum, þær Karla Rún Garðarsdóttir, Keflavík, og Eva Margrét Kristjánsdóttir, Haukum, sem eru í 12 manna hóp. Þrettán leikmenn voru valdar í verkefnið en nýliðinn Anna Ingunn Svansdóttir frá Keflavík er 13. leikmaður liðisins og mun æfa og ferðast með liðinu og vera til taks ef gera þarf breytingar á liðinu í verkefninu.