16 des. 2020Sara Rún Hinriksdóttir og Martin Hermannsson hafa verið valin körfuknattleikskona og körfuknattleikskarl ársins 2020 af KKÍ. Þetta er í 23. skipti sem valið er tvískipt milli karla og kvenna eða allt frá árinu 1998.

Körfuknattleikskona og karl ársins eru valin í kosningu af stjórn og starfsmönnum KKÍ, afreksnefnd KKÍ og landsliðsþjálfurum. Martin er að fá tilnefninguna í fimmta skipti og fimmta árið í röð. Sara Rún er að hljóta nafnbótina í fyrsta sinn. 

Val á körfuknattleikskonu ársins 2020


Körfuknattleikskona ársins 2020:
1. Sara Rún Hinriksdóttir
2. Hildur Björg Kjartansdóttir
3. Helena Sverrisdóttir
 
Aðrar sem fengu atkvæði eru í stafrófsröð:
Bríet Sif Hinriksdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.

Sara Rún Hinriksdóttir · Leicester Riders, England
Sara Rún er að hljóta viðurkenninguna í fyrsta sinn. Sara Rún sem er uppalin í Keflavík hefur frá unga aldri verið framúrskarandi leikmaður sínum flokkum og með meistaraflokki hér heima. Sara Rún hefur haldið áfram að bæta sinn leik jafnt og þétt á undanförnum árum. Sara Rún lék með Canisius háskólanum í Bandaríkjunum í fjögur ár með námi og samdi svo við Leicester Riders í Bretlandi í fyrra. Síðastliðið vor varð hún bikarmeistari með sínu liði og var valinn besti leikmaður liðsins í úrslitunum. Í deildinni var hún að skora tæp 17 stig og taka sex fráköst að meðaltali í leik en liðið hennar var í fyrsta til öðru sæti þegar deildin var stoppuð vegna heimsfaraldsins. Með íslenska landsliðinu hefur Sara Rún tekið stórt skref í framlagi en hún sýndi styrk sinn í landsleikjunum tveim í nóvember og sannaði að hún getur verið einn af burðarásum liðsins á næstu árum. Þá leiddi hún liðið í öllum helstu tölfræðiþáttum, það er yfir stig, fráköst og stoðsendingar og var besti leikmaður liðsins í leikjunum tveim.

Hildur Björg Kjartansdóttir · Valur (KR á síðasta tímabili)
Hildur Björg hefur leikið sem atvinnumaður erlendis undanfarin ár og kom þá til KR og lék með þeim þangað til tímabilið stoppaði í vor. Með liðinu fór hún í bikarúrslitaleikinn í febrúar, en í undanúrslitunum skoraði Hildur Björg 37 stig fyrir sitt lið. Hún skipti yfir til Vals fyrir núverandi tímabil og lék einn leik áður en hún meiddist/tímabilið stoppaði v/ Covid-19 og hún missti þar af leiðandi af landsliðsglugganum í nóvember. Hildur Björg verður áfram ein af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins og hefur verið það á síðustu árum með dugnaði og framlagi í helstu tölfræðiþáttum. Í undankeppninni sem hófst í nóvember fyrir ári síðan sannaði hún mikilvægi sitt fyrir liðið með hæð sinni og skoruðum stigum og teknum fráköstum.

Helena Sverrisdóttir · Valur
Helena er þriðja í valinu í ár en hún hefur verið valin „Körfuknattleikskona árins“ 12 sinnum á síðustu 16 árum sem er einstakt afrek og hefur hlotið nafnbótina lang oftast hjá konunum. Helena var lykilleikmaður Vals á síðustu leiktíð sem varð deildarmeistari eftir að tímabilið stoppaði. Þá var Helena efsti íslenskra leikmanna í tölfræðiþáttum deildarinnar yfir stig skoruð, fráköst og framlag að meðaltali í leik og önnur yfir stoðsendingar. Helena missti af nóvember landsliðsglugganum þar sem hún eignaðist stúlkubarn á dögunum en hefur á undanförnum árum farið fyrir liði sínu hvað varðar alla helstu tölfræði og framlag íslensku leikmannana í landsliðinu. 


Val á körfuknattleikskarli ársins 2020:

Körfuknattleikskarl ársins 2020:
1. Martin Hermannsson
2. Tryggvi Snær Hlinason
3. Haukur Helgi Briem Pálsson
 
Aðrir sem fengu atkvæði eru í stafrófsröð:
Elvar Már Friðriksson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Jón Axel Guðmundsson.
 
Martin Hermannsson · Valencia, Spánn (Alba Berlin í Þýskaland á síðustu leiktíð)
Martin er kjörinn körfuknattleikskarl ársins fimmta árið í röð. Martin hefur á undanförnum árum verið burðarás íslenska landsliðsins og er á sínu 26. aldursári einn mikivægasti leikmaður liðsins. Hann hefur tekið framförum í leik sínum ár eftir ár og sýnir framganga hans sem atvinnumaður það berlega. Martin kláraði sitt annað ár með Alba Berlin í Þýskalandi á síðasta tímabili þar sem hann hann bætti sig milli ára og var lykilmaður í liði sínu í sterkri atvinnumannadeild þar í landi. Hann átti mjög gott ár hvað varðar tölfræði og framlag fyrir liðið sitt. Alba Berlín vann tvöfalt, bæði deild og bikar heimafyrir, og þá lék liðið í EuroLeague, meistardeildinni í körfuknattleik þar sem Martin var m.a valinn leikmaður umferðarinnar sem er frábært afrek, en hann er annar íslendingurinn til að leika í EuroLeague, meistaradeild sterkustu liða Evrópu í körfuknattleik. 

Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza, Spánn
Tryggvi Snær hefur haldið áfram að taka miklum framförum ár eftir ár og er nú á sínu fjórða ári sem atvinnumaður í efstu deild á Spáni, sem talin er sú besta í Evrópu. Eftir að hafa leikið með Valencia og Monbus Obradoiro færði hann sig yfir til Zaragoza í fyrra og er nú í herbúðum liðsins annað árið í röð. Þar hefur Tryggvi Snær átt stóran þátt í velgengni liðsins og skilað stærra og stærra framlagi milli ára og þar af leiðandi fengið stærra hlutverk í liðinu. Hann er annar yfir bestu nýtingu deildarinnar á Spáni yfir nýtingu skota inni í teig og leiddi deildina nýlega yfir fjölda troðslna að auki. Þá er hann í 17. sæti yfir framlag að meðaltali í leik í deildinni og í 9.-11. sæti yfir frákastahæstum menn. Tryggvi Snær hefur einnig sýnt sama stíganda í leik sínum með landsliðinu á árinu. Hann tók þátt í öllum landsliðsverkefnum ársins og er einn af lykilmönnum liðsins í vörn og sókn, þar sem andstæðingar Íslands leggja ofuráherslu á að stöðva Tryggva hverju sinni, og munu þeir þurfa að halda því áfram á næstu árum.

Haukur Helgi Briem Pálsson · MoraBanc Andorra, Spánn (Unics Kazan í Rússlandi á síðustu leiktíð)
Haukur Helgi lék með Unics Kazan í Rússlandi á síðustu leiktíð og stóð sig vel með liðinu. Haukur Helgi samdi svo við MoraBanc Andorra í efstu deild á Spáni fyrir þetta tímabil og hefur verið lykilmaður hjá liðinu síðan. Hann hefur verið byrjunarliðsmaður og er með stórt framlag í hverjum leik fyrir liðið sitt. Með landsliðinu er Haukur Helgi einnig einn mikilvægasti leikmaður þess og hefur sýnt það í síðustu skipti sem hann hefur getað leikið með liðinu hversu stórt hlutverk hann leysir í vörn og sókn en Haukur Helgi verður áfram einn mikilvægasti leikmaður landsliðsins á komandi árum.

Körfuboltafólk ársins frá árinu 1998: 
1998: Helgi Jónas Guðfinnsson og Anna María Sveinsdóttir
1999: Herbert Arnarson og Guðbjörg Norðfjörð
2000: Ólafur Jón Ormsson og Erla Þorsteinsdóttir
2001: Logi Gunnarsson og Kristín Björk Jónsdóttir
2002: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2003: Jón Arnór Stefánsson og Signý Hermannsdóttir
2004: Jón Arnór Stefánsson og Birna Valgarðsdóttir
2005: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2006: Brenton Birmingham og Helena Sverrisdóttir
2007: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2008: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2009: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2010: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2011: Jakob Örn Sigurðarson og Helena Sverrisdóttir
2012: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2013: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2014: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2015: Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir
2016: Martin Hermannsson og Gunnhildur Gunnarsdóttir
2017: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2018: Martin Hermannsson og Hildur Björg Kjartansdóttir
2019: Martin Hermannsson og Helena Sverrisdóttir
2020: Martin Hermannsson og Sara Rún Hinriksdóttir
 
Oftast valin Körfuboltamaður og Körfuboltakona ársins:*
12 Jón Arnór Stefánsson (2002, 2003, 2004, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010, 2012, 2013, 2014, 2015)
12 Helena Sverrisdóttir (2005, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2014, 2015, 2019)
 5 Martin Hermannsson (2016, 2017, 2018, 2019, 2020)
 4 Jón Kr. Gíslason (1987, 1989, 1992, 1993)
 3 Kristinn Jörundsson (1973, 1975, 1977)
 2 Hildur Björg Kjartansdóttir (2017, 2018)
 2 Jón Sigurðsson (1976, 1978)
 2 Valur Ingimundarson (1984, 1988)
 2 Guðmundur Bragason (1991, 1996)
 2 Anna María Sveinsdóttir (1994, 1998)
 2 Birna Valgarðsdóttir (2002, 2004)
 
*Valið hefur verið tvískipt síðan 1998 en frá 1973 til og með 1997 var aðeins valin einn aðili, karl eða kona, en síðan þá hafa verið valin Körfuknattleiksmaður og Körfuknattleikskona ársins.

#korfubolti