28 jan. 2021

VÍS er nýr bakhjarl Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ). Þrátt fyrir óvissu vegna alheimsfaraldursins er það gleðiefni að framundan sé bikarkeppni KKÍ en þá verður barist um VÍS BIKARINN. Því er ljóst að körfuboltinn verður rauðari en hann hefur nokkurn tímann verið!


Körfubolti frábær forvörn
Þetta er í fyrsta skipti sem VÍS styður við KKÍ með þessum hætti. KKÍ hefur unnið frábært starf undanfarin ár og hafa vinsældir körfuboltans aukist jafnt og þétt. Ljóst er að mikil samlegð er í áherslum KKÍ og VÍS í lýðheilsu. VÍS beinir því spjótunum að forvörnum, samfélaginu til heilla ─ en íþróttir eru frábær forvörn, fyrir líf og sál.

Hannes Jónsson, formaður KKÍ
„Stuðningur fyrirtækjanna í landinu er okkur afar mikilvægur svo hægt sé að halda úti öflugu starfi. Við hjá KKÍ erum svo heppin að hafa góðan hóp fyrirtækja sem samstarfaðila og flest þeirra hafa verið í mörg ár með okkur. Núna bætist VÍS við þennan flotta hóp sem er afar ánægjulegt, enda VÍS eitt af öflugustu fyrirtækjum landsins. VÍS er nú einn af stóru samstarfsaðilum okkar og það verður gaman að sjá nafn VÍS í bikarkeppninni!

Þrátt fyrir það langa stopp sem hefur verið í keppnishaldi, þá er virkilega jákvætt að VÍS BIKARINN muni fara á loft í vor þegar við krýnum VÍS bikarmeistara karla og kvenna. Því er mikil tilhlökkun hjá okkur fyrir nýja samstarfinu við VÍS sem má segja að sé afmælisgjöf til sambandsins ─ en á morgun, föstudaginn 29. janúar, mun KKÍ fagna 60 ára afmæli sínu.“

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS
„Við erum stolt af samstarfinu og höfum mikla trú á KKÍ sem hefur unnið ötullega að því að auka vinsældir þessarar frábæru íþróttar síðustu ár. Iðkendum hefur fjölgað einna mest í körfubolta og er nú næst stærsta boltaíþróttin á eftir fótbolta. Við erum ánægð að geta lagt okkar af mörkum til þess að styrkja enn frekar öflugt starf KKÍ. Hreyfing hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú þegar alheimsfaraldurinn skekur heimsbyggðina. Ég er ekki í nokkrum vafa að bikarkeppnin í vor verður æsispennandi og það verður gaman að sjá hverjir hljóta VÍS BIKARINN!“


Nánari upplýsingar veita
Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS í síma 660-5260 eða með tölvupósti erlat@vis.is eða 
Hannes Jónsson, formaður KKÍ, í síma 698-7574 og með tölvupósti hannes.jonsson@kki.is