24 feb. 2021

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi á miðnætti leyfir nú áhorfendur á kappleikjum. Þrátt fyrir þær afléttingar, þá á eftir að útfæra nokkur atriði úr reglugerðinni inn í leiðbeiningar HSÍ og KKÍ um æfingar og keppni. Unnið er að lausn og útfærslu leiðbeininga með ÍSÍ og heilbrigðisráðuneytinu, en meðan svo er gilda fyrri leiðbeiningar HSÍ og KKÍ um framkvæmd leiks. Þó er heimilt að vera með 50 manns á ytra svæði, og því hægt að taka við áhorfendum á leiki kvöldsins. Gæta þarf sérstaklega vel að því að telja þarf alla sem eru á ytra svæði, þ.e. fjölmiðla, starfsmenn leiks og áhorfendur upp í 50 manna hámarkið. Þetta þýðir að nú geta 36 áhorfendur verið á leikjum í körfuknattleik.

Við viljum minna sérstaklega á að þegar notast er við 50 manna hámark er grímuskylda á alla og áhorfendur skulu fylgja 2 metra fjarlægðarviðmiðum öllum stundum. Börn telja ekki í þessu fjöldaviðmiðum sem nú eru í gildi en grímuskylda og fjarlægðarviðmið eiga við þau eins og aðra.

Uppfærðan starfsmannalista má finna á heimasíðu KKÍ.

Vonir standa til að hægt verði að klára leiðbeiningar HSÍ og KKÍ á morgun, en í þeim verður frekari útlistun á því hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að taka við 200 áhorfendum eins og reglugerð heilbrigðisráðuneytisins opnar á.