7 nóv. 2002Liðsmenn Harlem Globetrotters komu til landsins í gær frá London og gista á Grand Hotel í Reykjavík á meðan á dvöl þeirra stendur hér á landi. Í dag kl. 10.30 munu liðsmenn Harlem heimsækja Barnaspítala Hringsins og sýna kúnstir þeim börnum sem þar liggja og eiga því ekki möguleika á að koma á leikina. Kl. 17.00 í dag verða þeir svo í Smáralindinni fyrir utan BT tölvur þar sem þeir munu sýna kúnstir og árita plaköt og fleira. Þeir munu svo spila í kvöld í Reykjanesbæ í Íþróttahúsi Keflavíkur og hefst leikurinn kl. 20.00. Á morgun munu þeir leika á Egilsstöðum og heimsækja m.a. leikskólann þar. Á laugardag munu þeir koma fram í verslun Intersport við Bíldshöfða kl. 10.30 og í Kringlunni kl. 11.30. Þeir munu leika í Laugardalshöllinni kl. 14.00 og aftur kl. 20.00. Á sunnudaginn leika þeir á Akureyri kl. 14.00 og á Sauðárkrók kl. 20.00. Þeir munu svo halda af landi brott á mánudagsmorguninn.