20 nóv. 2002Tveir körfuknattleiksdómarar munu freista þess að gerast alþjóðlegir dómarar á næstunni en Körfuknattleikssambandið samþykkti í vikunni að senda þá Jón Bender og Sigmund Má Herbertsson á námskeið fyrir tilvonandi alþjóðadómara. Þeir félagar verða undir verndarvæng Jan Holmin, sem er eftirlitsdómari hjá FIBA, en hann mælti með Jóni og Sigmundi þegar hann kom á Valsmótið hér á landi í haust. Prófið sjálft verður haldið í apríl. Kristinn Albertsson, sem hefur verið FIBA-dómari um nokkurra ára skeið, endurnýjaði ekki alþjóðaréttindi sín í haust og eftir að Leifur Garðarsson var ráðinn skólastjóri í Hafnarfirði er óvíst að hann hafi tíma til að sinna dómarastörfum á vegum FIBA.