23 des. 2003Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, hefur fremur einstakt og skilvirkt fyrirkomulag varðandi deilur um ákvarðanir og lagareglur sambandsins, s.s. varðandi ákvarðanir FIBA í tengslum við félagaskipti eða lyfjamálefni, með því að á vegum FIBA starfar sérstök áfrýjunarnefnd sem skipuð er meðlimum af miðstjórn FIBA, en í forsæti nefndarinnar situr hlutlaus dómari. Hefur áfrýjunarnefndin afgreitt 19 mál frá stofnun nefndarinnar árið 1998, en stofnun nefndarinnar var meðal annars ætlað að skapa fljótvirkari og ódýrari leið til lausnar deilumála innan körfuknattleikshreyfingarinnar, og koma í veg fyrir dýr og tímafrek málaferli íþróttafélaga fyrir almennum dómstólum. Til gamans má geta þess að Ólafur Rafnsson formaður KKÍ á sæti í áfrýjunarnefndinni sem dómari. Dr. Ulrich Haas, þýskur lagaprófessor, hefur gegnt hlutverki hins hlutlausa dómara. Sem dæmi um störf og hlutverk nefndarinnar má nefna að þann 26. nóvember 2003 tók Dr. Haas m.a. fyrir málefni Erazem Lorbek, eins af efnilegri leikmönnum Evrópu, sem hafði neitað að undirrita leikmannasamning við uppeldisfélag sitt, Olympic Ljubljana í Slóveníu, en hafði átt félagaskipti til Fortitudo Bologna á Ítalíu. Var ítalska félagið dæmt til að greiða uppeldisfélaginu bætur, og á grundvelli úrskurðarins náðust sættir milli félaganna.