5 jan. 2004Fannar Ólafsson, landsliðmiðherji sem lék með Indiana University of Pennsylvania og USC-Spatransburg í Bandaríkjunum sl. í þrjár leiktíðir, mun snúa aftur til Keflavíkur og leika með sínu gamla félagi til loka þessarar leiktíðar. Fannar verður löglegur með Keflavík mánudaginn 12. janúar, en hann skipti nýlega úr Hamri þar sem hann var skráður hér á landi. Vegna kennaraverkfalls við háskóla Fannars í Bandaríkjunum, IUP, hefur námsáætlun hans farið úr skorðum. Niðurstaða þess er sú að hann mun snúa aftur til Íslands og ljúka námi hér. Fannar, sem er 25 ára, leggur stund á viðskiptafræði. Fannar hefur á undanförnum árum leikið vel með skóla sínum og á yfirstandandi leiktíð hefur hann skorað að meðaltali 9,3 stig og hirt 7,7 fráköst. Fannar er einn tveggja helstu miðherja íslenska landsliðsins og mun án efa styrkja Keflavíkurliðið verulega í báráttunni sem framundan er. Fannar lék með landsliðinu gegn Catawba College á milli jóla og nýárs og átti mjög góðan leik. Fannar hefur styrkst verulega líkamlega undanfarin ár og gaman verður að fylgjast með honum í deildinni í vetur.