26 feb. 2004Aganefnd KKÍ vísaði kærum á hendur Gunnari Einarssyni leikmanni Keflavíkur og JaJa Bey leikmanni KFÍ frá á fundi sínum í vikunni, en úrskurðirnir voru birtir nú í morgun. Þeim félögum var vísað af leikvelli sl. laugardag þegar lið þeirra mættust í Intersport-deildinni í Keflavík. Þá tók aganefnd fyrir kæru á hendur Julian Martinez þjálfara drengjaflokks Þórs á Akureyri og tveggja leikmanna Þórs, vegna atvika sem komu upp í leik Hauka og Þórs í drengjaflokki sl. laugardag. Julian Martinez, sem tvívegis áður hefur verið dæmdur í leikbann af aganefnd í vetur, var dæmdur í fjögurra leikja bann í öllum flokkum. Hann tekur bannið út í fjölliðamóti 11. flokks karla um næstu helgi. Martinez er einnig í leikbanni í leik Þórs og Vals í 1. deild karla á morgun, en það er síðari leikurinn í tveggja leikja banni sem hann var dæmdur í 3. febrúar sl. Bjarni Árnason, sem áður hafði verið dæmdur í eins leiks bann í meistaraflokki, var dæmdur í tveggja leikja bann í drengjaflokki og Friðjón Helgason var dæmdur í eins leiks bann í drengjaflokki. Á fundi aganefndar var Sigurður Magnússon leikmaður Keflavíkur b dæmdur í eins leiks bann, en hann var rekinn af leikvelli í leik Keflavíkur b og ÍA sl. laugardag. Þá var Böðvar Björnsson leikmaður 10. flokks ÍA dæmdur í eins leiks bann vegna brottvísunar sem hann hlaut í leik ÍA og Breiðabliks sl. sunnudag.