30 mar. 2004Í kvöld fer fram oddaviðureign Grindavíkur og Keflavíkur um sæti í úrslitaleikjum Intersport-deildarinnar. Staðan eftir fjóra leiki er jöfn 2-2 og komið að úrslitastund. Leikur liðanna í Grindavík sl. föstudag var ótrúlega spennandi og frábær skemmtun fyrir áhorfendur. Framlenging, tilþrif og háspenna. Á sunnudaginn var sem aðeins annað liðið mætti til leiks, Keflavíkingar völtuðu yfir granna sína og ótrúlegar tölur sáust á stigatöflunni. Þegar upp var staðið hefði Keflavík unnið 48 stig sigur á Grindvíkingum. Í kvöld skipta þau úrslit engu máli heldur hvað leikmennirnir gera á vellinum. Það lið sem sigrar í kvöld mun leika til úrslita um Íslandsmeistarartitilinn gegn Snæfelli, en tapliðið fer í sumarfrí. Fyrsti úrslitaleikurinn verður í Stykkishólmi á fimmtudagskvöld, 1. apríl. Leikurinn í kvöld, sem sýndur verður beint á Sýn, hefst kl. 19:15.