31 mar. 2004Á stjórnarfundi Körfuknattleikssambands Íslands í fyrradag tilkynnti undirritaður stjórn sambandsins að framkvæmdastjóri KKÍ, Pétur Hrafn Sigurðsson, hafi beðist lausnar frá störfum vegna nýs starfstækifæris. Pétur Hrafn hefur ekki bara lengstan - heldur langlengstan - starfsaldur nokkurs starfsmanns sérsambands innan íþróttahreyfingarinnar, en hann hóf störf á skrifstofu Körfuknattleikssambandsins árið 1987 eða fyrir 17 árum síðan. Það er mikill missir fyrir íslenska körfuknattleikshreyfingu að einstaklingur með svo víðtæka reynslu og þekkingu á innviðum hreyfingarinnar hverfi á braut, en hinsvegar mun Pétur Hrafn ekki fara langt þar sem honum hefur verið boðið starf sölustjóra Íslenskra Getrauna, sem staðsett er í sama húsi. Íslensk körfuknattleikshreyfing stendur í þakkarskuld við Pétur Hrafn, enda hefur hann reynst einstaklega farsæll og vinsæll í sínum störfum. Nýtur hann virðingar fyrir störf sín bæði hérlendis og erlendis. Óskar stjórn sambandsins honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Fyrir undirritaðan er ljóst að náinn samstarfsfélagi til 14 ára hverfur nú á braut, en hann mun án efa halda áfram að gegna trúnaðarstörfum beint eða óbeint í þágu körfuknattleikshreyfingarinnar um sinn, auk þess að sinna störfum og verkefnum í þágu KKÍ út keppnistímabilið. Stjórn KKÍ mun innan tíðar auglýsa stöðu framkvæmdastjóra sambandsins lausa til umsóknar. f.h. stjórnar KKÍ, Ólafur Rafnsson,formaður.