3 sep. 2004Kristinn Óskarsson körfuknattleiksdómari mun dæma leik Belga og Ungverja í A-deild Evrópukeppni landsliða þann 18. september nk. en leikurinn fer fram í Charleroi í Belgíu. Meðdómarar Kristin verða þeir Nikolaos Mpotitsis frá Svíþjóð og Guerrino Cerebuch frá Ítalíu, en leikurinn verður dæmdur í þriggja manna kerfi eins og allir leikir í A-deildinni. Hér er um viðbótartilnenfingu að ræða því fyrir á Kristinn að dæma leik Íra og Svisslendinga í B-deildinni í Dublin þann 15. september. Hinn íslenski FIBA-dómarinn, Sigmundur Már Herbertsson og íslenski eftirlitsmaðurinn, Pétur Hrafn Sigurðsson fengu einnig úthlutað verkefnum nú í september. Sigmundur Már Herbertsson fer til Noregs þann 22. september og dæmir þar leik Norðmanna og Bosníu Hersegovinu í B-deild Evrópukeppni kvenna. Meðdómari han er Jonas Bille frá Danmörku sem dæmdi einmitt í Svíþjóð á Norðurlandamóti kvenna og eftirlitsmaður er Örjan Engberg frá Svíþjóð sem hefur séð um dómaramál á Scania Cup í mörg ár. Pétur Hrafn Sigurðsson fyrrverandi framkvæmdastjóri KKÍ og eftirlitsdómari fer til Noregs þremur dögum á eftir Sigmundi og hefur umsjón með leik Norðmanna og Möltubúa í sömu keppni og Sigmundur dæmir í. Íslenska kvennalandsliðið hefur einmitt leikið gegn báðum þessum þjóðum í sumar og sigrað. Dómarar leiksins verða þau Karolina Andersson frá Finnlandi og Edward McKinley frá Skotlandi.