5 nóv. 2004Um helgina verða yngri flokkar í aðalhlutverki í mótahaldi KKÍ þótt einnig verði leikið í meistaraflokki karla og kvenna. Alls verða haldin 15 fjölliðamót yngri flokka um helgina, þar af nokkur á stöðum þar sem slík mót eru ekki haldin á hverjum degi. Fyrst fjölliðamót sögunnar sem haldið er í Vík í Mýrdal verður að veruleika þegar 2. umferð í 10. flokki kvenna C-riðill fer þar fram á morgun. Einnig verða mót á Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum, en á þessum stöðum eru slík mót sjaldséð. Auk áður greindra staða má geta þess að alls verða 5 mótanna 15 haldin á suðurlandi, því auk mótanna í Eyjum og í Vík, verða mót á Flúðum, í Hveragerði og í nýja Iðu-húsinu á Selfossi. Fyrir norðan verða mót á Akureyri, Sauðárkróki og Hvammstanga og í Reykjanesbæ verða bæði mót í Keflavík og Njarðvík. Á höfuðborgarsvæðinu verða mót hjá Fjölni í Rimaskóla í Grafarvogi, hjá KR-ingum í DHL-höllinni í vesturbænum, í Hagaskóla, sem einnig er í vesturbænum, en það mót verður í umsjá Ármanns/Þróttar. Þá verður mót hjá Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði. Ekkert verður leikið í Intersport-deildinni um helgina eða í 1. deild kvenna. Í 1. deild karla eru þó 4 leikir á dagskrá og einnig verður leikið í 2. deild karla og kvenna, sem og í unglingaflokki karla og kvenna.