19 feb. 2016Tólf leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í körfubolta sem mætir Portúgal í undankeppni EM 2017 eiga eitt sameiginlegt. Þeim hefur öllum tekist að verða Íslandsmeistarar á ferlinum. Aðeins tvær þeirra hafa þó unnið fleiri titla en fararstjóri íslenska liðsins í ferðinni til Ilhavo þar sem leikurinn fer fram á morgun.

Það er örugglega mjög sjaldgæft að allir tólf leikmenn kvennalandsliðsins hafa upplifað það á sínum ferli að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Það er seinni tíma verk að finna það út hvort að þetta hafi yfir höfuð gerst áður.  

Pálína Gunnlaugsdóttir er sigursælust af leikmönnum íslenska liðsins sem mætir því portúgalska á morgun en hún varð Íslandsmeistari í fimmta sinn vorið 2013. Pálína lék þá með Keflavík og þrír aðrir leikmenn íslenska liðsins í dag urðu þá meistarar með henni. 

Ein af þeim er Bryndís Guðmundsdóttir sem varð fyrst Íslandsmeistari af öllum leikmönnum íslenska liðsins en Bryndís vann sinn fyrsta af fjórum Íslandsmeistaratitlum árið 2004. Hinar tvær sem unnu titilinn með Pálínu og Bryndísi vorið 2013 voru þær Ingunn Embla Kristínardóttir og Sandra Lind Þrastardóttir.

Pálína hefur einnig unnið titilinn með þremur öðrum og þá sem leikmaður Hauka. Það eru þær Helena Sverrisdóttir, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir. Þá vann Pálína titilinn einnig með Margréti Köru Sturludóttur þegar þær léku með Keflavík vorið 2008 og hefur því orðið Íslandsmeistari með sjö af ellefu leikmönnum íslenska liðsins.

Tveir leikmenn íslenska liðsins hafa þurft að bíða lengst eftir því að verða Íslandsmeistarar en það eru þær Helena Sverrisdóttir og Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem urðu meistarar saman með Haukum 2006 og 2007. Helena er nú að spila sitt fyrsta tímabil á Íslandi síðan þá.

Tvær í íslenska liðinu eru núverandi Íslandsmeistarar en það eru Snæfellssysturnar Berglind og Gunnhildur Gunnarsdætur en Berglind hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn með Snæfelli undanfarin tvö ár.

Guðbjörg Norðfjörð, fararstjóri íslenska liðsins í Portúgal og varaformaður KKÍ, hefur einnig orðið Íslandsmeistari og það þrisvar sinnum. Guðbjörg varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari með KR-liðinu á fjórum árum frá 1999 til 2002.

Þjálfari liðsins, Ívar Ásgrímsson, hefur einnig orðið Íslandsmeistari en hann vann titilinn með Haukum vorið 1988.

Það eru því fullt af Íslandsmeisturum, núverandi og fyrrverandi, sem mæta til leiks á móti Portúgal í Ilhavo á morgun klukkan 18:30 að íslenskum tíma.

Íslandsmeistaratitlar leikmannanna tólf í íslenska hópnum:
Pálína Gunnlaugsdóttir · 5 (Haukar 2006, 2007, Keflavík 2008, 2011, 2013)
Bryndís Guðmundsdóttir · 4 (Keflavík 2004, 2005, 2011, 2013)
Helena Sverrisdóttir · 2 (Haukar 2006, 2007)
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir · 2 (Haukar 2006, 2007)
Ragna Margrét Brynjarsdóttir · 2 (Haukar 2007, 2009) 
Margrét Kara Sturludóttir · 2 (Keflavík 2008, KR 2010)
Berglind Gunnarsdóttir · 2 (Snæfell 2014, 2015)
Guðbjörg Sverrisdóttir ·1 (Haukar 2009)
Jóhanna Björk Sveinsdóttir · 1 (KR 2010) 
Ingunn Embla Kristínardóttir · 1 (Keflavík 2013)
Sandra Lind Þrastardóttir · 1 (Keflavík 2013)
Gunnhildur Gunnarsdóttir · 1 (Snæfell 2015)