6 júl. 2017

FIBA gaf í vikunni út lista yfir nýja dómara á vegum sambandsins og á þeim lista eru tveir íslenskir dómarar, þeir Davíð Tómas Tómasson og Jóhannes Páll Friðriksson, þar með bætast þeir á lista yfir FIBA dómara Íslands en fyrir eru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Leifur S.Garðarsson.

 

Mikil endurnýjun er í dómarahópi FIBA og að þessu sinni bætast 96 dómarar við. Fyrr í vetur var gefin út að FIBA sé að taka upp nýtt fyrirkomulag á leyfiskerfi dómara og gilda nú leyfi dómara í tvö á í senn. Taka leyfin hjá Davíð og Jóhannesi gildi þann 1. september.

 

Er þetta mikið gleðiefni en nú á Ísland fjóra FIBA dómara sem og tvo FIBA eftirlitsmenn og FIBA leiðbeinanda og hafa þeir aldrei verið eins margir.

 

Þeir Davíð og Jóhannes halda til Zagreb í Króatíu í næstu viku þar sem þeir fara í þjálfun og próf og eru þá tilbúnir til að fá tilnefningar frá FIBA í haust.