21 jún. 2023Rúnar Birgir Gíslason var nú á dögunum í Ljublijana í Slóveníu þar sem hann sat lokanámskeið fyrir tæknifulltrúa FIBA (e. FIBA Technical Delegate). Rúnar Birgir hefur síðastliðna átta mánuði farið yfir lesefni, hlustað á fyrirlestra og tekið verkefni og próf á námsvef FIBA og var námskeiðið í Ljublijana lokahnykkurinn á náminu. Það er þó ekki fyrr en 1. september sem Rúnar getur formlega talið sig tæknifulltrúa FIBA.

Tæknifulltrúi FIBA er hlutverk sem FIBA kom á laggirnar 2017 þegar landsliðin fóru að leika í lansliðsgluggum í stóru álfukeppnunum. Tæknifulltrúi er sendur á landsleiki til að vera augu og eyru FIBA á staðnum og aðstoða liðin við að framkvæma leikinn. Fylgja öllum FIBA stöðlum um framkvæmd leiks en fyrir FIBA er einmitt framkvæmd, ímyndin og útlit og eins að leikurinn fari fram eftir leikreglum mjög mikilvægt.

Atriði sem tæknifulltrúi þarf að hafa þekkingu á eru mörg svo sem öryggismál, markaðsmál, lyfjaeftirlit, sjónvarpsmál, leikreglur, búningar, taka út hótel og leikstaði, aðgengi fjölmiðla, vera eftirlitsmaður á meðan leiknum stendur og fleira.

Tæknifulltrúar eru einnig sendir í mót á vegum FIBA víðsvegar um heiminn til að sjá um afmarkaða þætti eins og til dæmis að stýra viðburðinum eða sjá um að vera tengiliður FIBA við mótshaldara án þess að vera eftirlitsmaður.

Tæknifulltrúar FIBA eru nú 144 í heiminum og er þeim skipt niður eftir heimsálfum, í Evrópu eru þeir 63 og hver með sinn bakgrunn. FIBA hefur þó gefið út að í framtíðinni verði tæknifulltrúar sendir milli svæða.

Rúnar Birgir er ekki ókunnugur þessu starfi en hann hefur verið FIBA Commissoner (Eftirlitsmaður) á undanförnum árum og mun meðal annars stýra U20 móti kvenna í A-deild í sumar. Það starf er áfram til og notað sér en starf Tæknifulltrúa er stærra og viðameira.

KKÍ óskar Rúnari Birgi til hamingju með nafnbótina og traustið sem FIBA sýnir honum með því að bjóða honum þetta hlutverk og óskar honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann mun fá í framtíðinni en Rúnar Birgir er fyrstur Íslendinga til verða tæknifulltrúi FIBA.