11 júl. 2023Ísland mætti Búlgaríu í leik um 7. sætið á Evrópumótinu á sunnudaginn. Það var ljóst á fyrstu mínútu að stelpurnar okkar ætluðu sér sigur í lokaleik mótsins og léku af krafti, sóknin virkaði mjög vel og allar tilbúnar að spila saman sem lið. Staðan í hálfleik var 45:41 okkar stelpum í vil. Stelpurnar héldu áfram í seinni hálfleik og urðu lokatölur í leiknum 86:69 Íslandi í vil. Þar með tryggðu þær sér 7. sætið í mótinu sem er næst besti árangur íslensks U18 ára kvennaliðs frá upphafi á EM. Frábæru móti hjá stelpunum okkar er því lokið og þær geta farið stoltar heim eftir landsliðs sumarið sitt. 

Króatía, sem var með Íslandi í riðlakeppninni, stóð uppi sem sigurvegari eftir úrslitaleik gegn Lúxemborg. Grikkland náði þriðja sætinu eftir sigur á Bosníu.

Sara Líf Boama leiddi liðið á mótinu í framlagi með 15,6 að meðaltali í leik og fráköstum 8,9, Anna María Magnúsdóttir leiddi liðið í stigum 10,1 í leik að meðaltali og Emma Hrönn Hákonardóttir var með 4,1 stoðsendingu í leik.

Allt um mótið má sjá hérna: 
www.fiba.basketball/europe/u18bwomen/2023

#korfubolti