17 júl. 2023U20 karla luku keppni í gær í A-deild Evrópumótsins en þar voru það 16 bestu þjóðir álfunar sem áttust við. Okkar strákar stóðu sig frábærlega og tryggðu sér áframhaldandi veru í A-deildinni að ári sem er stórt afrek. Þar verður Ísland eitt norðurlandanna meðal þátttakenda á næsta sumri. Íslenska liðið tapaði einum leik með tveim stigum í riðlakeppninni, sem þýddi að leikið var um sæti 9.-16. en með sigri þar hefði verið leikið um sæti 1.-8. en í jafn sterku móti er stutt á milli sigurs eða taps.

Það voru Frakkar sem stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins, eftir sigur á Ísrael í úrslitaleiknum. Frakkar léku með Íslandi í riðli og voru mjög góðir í ár. Heimamenn Grikkja náðu í bronsið eftir leik gegn Belgíu. Ísland lék hörku leik gegn Grikkjum og áttu í fullu tréi við þá fyrir utan slæman þriðja leikhluta. Þrjár þjóðir féllu um deild, Eistland, Pólland og Króatía féllu um deild. 

Orri Gunnarsson, Almar Orri Atlason, Tómas Valur Þrastarson og Ágúst Goði Kjartansson leiddu liðið í helstu tölfræðiþáttum. Orri var með hæðsta framlagið að meðaltali í leik, 16,6, Tómas með 15,5 og Almar með 12,4. Orri var stigahæstur að meðaltali í leik með 18,3 stig en næstir voru þeir Almar með 17,6 og Tómas 15,8 stig. Almar var með flest fráköst 6,1 að meðaltali í leik og Ágúst með flestar stoðendingar að meðaltali í leik 3,4.

Annars léku okkar leikmenn allir vel sem lið og lögðu allir sitt á vogaskálarnar sem skilaði jafn góðum árangri og raun bar vitni. 

Allt um mótið má sjá hérna: 
www.fiba.basketball/europe/u20/2023

#korfubolti