Einar Ólafsson hlaut heiðurkross KKÍ í febrúar 2001 og er hann einn fimm einstaklinga sem hafa hlotið heiðurskross KKÍ í 63 ára sögu sambandsins. Það sýnir hversu öflugur eldhugi Einar var og á hann mjög stóran þátt í útbreiðslu og kennslu á körfuboltanum hér fyrr á árum.

Einar var hlédrægur og lét yfirleitt lítið fyrir sér fara en ávalt tilbúinn að kenna og leiðbeina. Þrátt fyrir háan aldur var hann að mæta á leiki þar til allra síðustu ár og þá aðallega hjá ÍR en einnig mætti hann á einstaka landsleiki. Alltaf var gaman að ræða við hann og finna væntumþykju hans fyrir íþróttinni okkar og KKÍ. Hann vildi sjaldan geri mikið úr sínum afrekum og hversu mikinn þátt hann átti í að efla körfuboltann í landinu sem sýnir svo vel hlédrægni hans fyrir hans góðu störfum. 
 
Körfuknattleikshreyfinginn kveður í dag einn sinn besta liðsmann, fyrir hönd stjórnar og starfsmanna KKÍ sendum við sonum Einars og fjölskyldu þeirra samúðarkveðju með kærum þökkum fyrir allt það sem Einar gaf íslenskum körfubolta. 
 
Guð blessi minningu Einars Ólafssonar,

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir, formaður KKÍ  
Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri  KKÍ