19 des. 2016

Ísland leikur í A-riðli á lokamóti EM, EuroBasket 2017, sem fram fer í Helsinki dagana 31. ágúst til 6. september næsta haust.

 

Liðið sem drógst í riðilinn úr 4. styrkleikaflokki er lið Slóveníu. Leikur Íslands og Slóveníu fer fram á fjórða leikdegi þriðjudaginn 5. september.

 

Ísland hefur þrívegis mætt Slóveníu, nú síðast sumarið 2016 á æfingamóti í Austurríki, og hefur Slóvenía unnið í öll skiptin (0% sigurhlutfall Íslands). Hinir leikirnir fóru fram árin 1999 og 2000 í undankeppni EM það árið.

 

Slóvenía vann alla leiki sína í undankeppninni en þeir léku í riðli með Úkraínu, Búlgaríu og Kosovo.

Lið Slóvena hefur verið mjög framarlega undanfarin ár og styðst að minnast þess að á EM 2015 lentu þeir í 12. sæti og þar á undan árið 2013 lentu þeir í 5. sæti þegar keppnin fór fram á þeirra heimavelli í Slóveníu. Þeir léku á HM á Spáni árið 2014 og lentu í 7 .sæti sem er frábær árangur. Þeirra frægasti núverandi leikmaður er Goran Dragić, leikmaður Miami Heat, en Goran hefur einnig leikið með Phoenix Suns tvö tímabil og Houston Rockets á undanförnum árum. Þá hefur bróðir hans, Zoran Dragić, fyrrum leikmaður í NBA og núverandi leikmaður Emporio Armani Milano á Ítalíu einnig verið meðal leikmanna liðsins og lék með þeim í undankeppninni í sumar. Meðal annara leikmanna sem vert er að nefna eru þeir Jaka Klobucar, sem leikur með Istanbul BB í Tyrklandi og nafni hans Jaka Blažič, sem leikur með Baskonia á Spáni og Beno Udrih leikmenn Detroit Pistons.

Miðasala á EM fer fram á tix.is en nú þegar hafa rúmlega 1.100 íslendingar keypt sér miðapakka til Finnlands sem munu styðja við liðið og eru enn til miðar. KKÍ hvetur alla sem áhuga hafa á að fara til Helsinki að kaupa miða í tíma til að tryggja sér bestu sætin og vera á „íslendingasvæðinu“ á hverjum leik og til að kaupa miða á besta verðinu áður en það verður uppselt í haust.

 

Dagskrá EuroBasket · A-riðill í Helsinki

31. ágúst - Ísland-Grikkland

1. september - Frídagur í riðlinum

2. september - Pólland-Ísland + landsleikur í fótbolta: Finnland-Ísland í undankeppni HM

3. september - Frakkland-Ísland

4. september - Frídagur í riðlinum

5. september - Ísland-Slóvenía

6. september · Finnland-Ísland

Liðskynningar fyrir EM í Finnlandi · Mótherjar Íslands
Frakkland
Grikkland
Finnland
Slóvenía