12 jan. 2001Hamarsmenn unnu frækilegan sigur á Haukum í Epson-deildinni í gærkvöld, 87-86. Hamar náði að vinna upp 28 stiga forskot Hauka í síðari hálfleik sem hlýtur að vera met. Með sigrinum skutust Hamarsmenn í fjórða sæti Epson-deildarinnar, en Haukar féllu í sjötta sætið. Bæði liðin hafa 14 stig. Í Seljaskóla töpuðu ÍR-ingar sínum örðum leik á heimavelli í vetur er þeir mættu Njarðvíkingum. Gestirnir sigldu fram úr í þriðja leikhluta eftir að staðan var 51-51. ÍR-ingar misstu boltann hvað eftir annað og Njarðvíkingar gengu á lagið og tryggðu sér sigur. Í Borgarnesi unnu heimamenn sinn sjötta sigur í deildinni, er þeir lögðu Valsmenn 97-89. Þar með eru Skallagrímsmenn komnir í áttunda sæti deildarinnar, en ÍR-ingar eru nú í því níunda. Valsmenn eru áfram í tólfta sæti. Tveir leikir eru fyrirhugaðir í kvöld. Tindastóll og UMFG mætast á Sauðárkróki og Keflavík og KR í Keflavík.