16 jan. 2001Kristinn Albertsson dómari úr Breiðablik dæmir sinn 400. leik í úrvalsdeild í kvöld, þriðjudaginn 15. janúar 2001, er hann dæmir leik Vals gegn Tindastól. Hefur enginn dómari dæmt svo marga leiki í úrvalsdeild karla. Kristinn dæmdi sinn fyrsta leik í úrvalsdeild 16 ára gamall, þann 25. febrúar 1982. Meðdómari hans í þeim leik, sem var leikur ÍS og Njarðvíkur í Kennaraháskólanum, var Gunnar Valgeirsson. Í þeim leik skoraði Valur Ingimundarson 34 stig fyrir Njarðvík. Í 400. leik Kristins verður Valur einnig þátttakandi en í öðru hlutverki. Meðdómari Kristins á þriðjudaginn er Bjarni G. Þórmundsson einnig úr Breiðablik, þetta er jafnframt hans fyrsti leikur í úrvalsdeildinni. Auk þess að hafa dæmt þessa 400 leiki og vera leikjahæsti dómari í úrvalsdeild hefur Kristinn dæmt 81 leik í úrslitkeppni úrvalsdeildar og er þar einnig leikjahæstur.