28 nóv. 2001Um síðustu helgi fór fram framhaldsskólamót í körfuknattleik á Laugarvatni. Mótið var á vegum KKÍ en það voru félagar úr Ungmennafélagi Laugdæla sem sáu um framkvæmd mótsins. Einnig var haldin þriggjastiga keppni í karla- og kvennaflokki. Þátttaka á mótinu var ekki eins góð og vonast var til en á mótinu var mikið úrval góðra leikmanna og spilaður var skemmtilegur körfubolti. Úrslitaleikur í karlaflokki var á milli Flensborgarskólans í Hafnarfirði og Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki. Sauðkrækingar mættu sterkir til leiks og sigruðu nokkuð örugglega 106-78, í stórskemmtilegum leik þar sem Axel Kárason leikmaður úrvalsdeildarliðs Tindastóls fór mikinn og skoraði sex þriggja stiga körfur og 45 stig alls. Í úrslitaleik í kvennaflokki var Suðurlandsslagur þar sem lið Menntaskólans að Laugarvatni bar sigur úr býtum í leik gegn grönnum sínum úr Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Lokatölur urðu 59-30. Í þriggja stiga keppninni var það Axel Kárason FNV sem sigraði í karlaflokki og hlaut 14 stig af 20 mögulegum, en í kvennaflokki sigraði Sunna B. Reynisdóttir ML og hlaut hún 15 stig af 20.