/fiba%20-%20Copy%20(1).png)
8 apr. 2020Stjórn FIBA Europe hélt stjórnarfund í gær og tók fyrir málefni er varða stöðuna í heiminum í dag og með framhaldið í sumar í mótahaldi sínu.
Stjórn FIBA Europe komst að þeirri niðurstöðu að engin mót yngri landsliða fari fram í sumar á þeirra vegum.
Það þýðir að Evrópukeppnir U16, U18 og U20 liða fara ekki fram árið 2020 í öllum deildum.
Að auki verður ekkert af NM í Finnlandi hjá U16 og U18 liðunum og nú þegar hefur verið hætt við verkefni U15 liðanna í Danmörku í júní en tilkynning barst til KKÍ þess efnis í gær.
Mikilvægast er að setja áfram heilsuna í forgang og reyna allt til að stoppa útbreiðslu veirunnar sem nú herjar á heiminn. Staðan er víða slæm og ennþá margt óljóst hvenær körfuknattleiksæfingar geta hafist að nýju og einnig hver staðan verður þá í Evrópu allri til ferðalaga og dvalar erlendis. Því tók FIBA þessa ákvörðun í gær.
Stjórn og starfsfólk KKÍ mun skoða á næstu misserum áfram hvort eitthvað annað afreksstarf en keppni á mótum erlendis fari fram þegar það verður leyfilegt og gerlegt síðar í sumar.
#korfubolti