30 jan. 2026

Laugardaginn 24. janúar komu dómarar KKÍ saman á fræðslufundi þar sem innsendar ábendingar frá bæði þjálfurum og dómurum voru yfirfarnar. Helstu niðurstöður ábendinganna og þeirrar vinnu sem að fram fór á fundinum voru þessar:

Atriði sem hafa gengið vel

• Yfirveguð og fagleg framkoma dómara í samskiptum við þjálfara og aðra þátttakendur leiks.

• Dómaratækni sem felur í sér að flauta ekki fyrr en atvik er yfirstaðið (patient whistle), sem hefur dregið úr dómum á minniháttar frávik (marginal calls).

• Dómarar greina oftar rétt þegar sóknarmaður skapar sjálfur snertingu og refsa síður varnarmönnum í slíkum aðstæðum.

 

Áherslur til úrbóta

• Auka stöðugleika í dómgæslu með betri undirbúningi og því að fylgja í hvívetna stöðluðu verklagi.

• Dómarar skulu ekki refsa fyrir minniháttar frávik í varnarleik (marginal contact) þegar sóknarmaður skapar sjálfur snertinguna. Jafnframt skulu dómarar taka skýra og samræmda afstöðu gagnvart atvikum þar sem sóknarmenn krækja, klemma eða ýta sér frá varnarmönnum þegar sótt er að  körfu, eða sparka fótum út í stökkskotum til að skapa snertingu.

• Setja skýrari mörk gagnvart mótmælum, athugasemdum og sífelldum spurningum. Óásættanlegt er að leikmenn sýni ögrandi framkomu gagnvart andstæðingum eða dómurum, hvort sem er með orðum eða ógnandi líkamstjáningu. Jafnframt skal ekki líða samskipti við áhorfendur sem túlka má sem ögrandi eða sem geta undið upp á sig með neikvæðum hætti.

Áfram verður unnið með þessi atriði og stefnt að því að dómarar bæti sig áfram frá leik til leiks með því að draga lærdóm bæði af því sem að vel er gert og því sem að má betur fara.