Síðasta tímabil var okkur mikil vonbrigði þar sem við töpuðum bæði í undanúrslitum bikars og Íslandsmóts með flautukörfu. Árangur var samt svipaður og ég hafði búist við fyrir tímabilið en litlu munaði að betri árangur næðist. Á komandi tímabili er takmarkið sett hærra þar sem við erum með nokkuð svipaðan mannskap og í fyrra, missum Ingvar Guðjóns og Sigfús Gizurar. Þetta er töluverður missir og veikir auðvitað okkar hóp þar sem báðir þessir leikmenn voru í byrjunarliðinu. En maður kemur í manns stað og fáum við tvo unga stráka í staðinn, Lýð Vignisson, Hólmara sem hefur spilað í Bandaríkjunum síðustu ár og á hann að fylla skarðið sem Ingvar skilur eftir sig og svo Ásgeir Ásgeirsson (17 ára) frá Grindavík. Báðir þessir strákar eru ungir og eru að stíga sín fyrstu spor í úrvalsdeildinni og mun það örugglega taka þá einhvern tíma að átta sig á deildinni. Eins og síðasta ár er mikið stólað á tvo leikmenn, þ.e. Gumma Braga og Jón Arnar. Báðir þessir leikmenn áttu mjög gott tímabil í fyrra og býst ég við þeim enn sterkari í vetur. Gummi var t.d. næst stigahæsti og frákastahæsti Íslendingurinn í fyrra og sýnir það hve vel hann spilaði. Að vísu lenti hann í vandræðum í úrslitakeppninni og var það kannski ein af ástæðum þess að við fórum ekki alla leið. Jón Arnar átti frábært tímabil í fyrra og spilaði gríðarlega vel í úrslitakeppninni og var að mínu mati einn allra besti leikmaður síðasta tímabils. Jón Arnar er búinn að æfa vel í sumar og er í mjög góðu formi í dag. Haukaliðið byggir að vísu töluvert á þessum tveim leikmönnum en við höfum einnig sterkan hóp sem byggir á blöndu af reynslumeiri leikmönnum, s.s. Marel sem átti gott tímabil í fyrra eftir tvö lakari tímabil, Braga sem hefur verið að spila vel hjá okkur á undirbúningstímabilinu og svo unga stráka sem hafa verið að spila vel hjá okkur í haust, eins og Eyjólf sem hefur tekið miklum framförum en þetta verður hans annað ár í efstu deild. Eyjólfur fékk sína eldskírn í Epson deildinni í fyrra en var mjög óheppinn og braut á sér höndina á æfingu í jólafríinu og missti af restinni á tímabilinu. Í haust hefur hann fengið mikinn “séns” vegna meiðsla Gumma Braga og hefur hann staðið sig mjög vel og er örugglega orðinn einn okkar albesti miðherji í Epson deildinni. Aðrir leikmenn sem eiga eftir að láta að sér kveða í vetur eru Davíð, Þröstur og Leifur. Útlendingar hafa alltaf haft gríðarleg áhrif á liðin. Á síðasta tímabili voru það þau lið sem voru með bestu útlendingana sem fóru lengst eins og síðustu ár. Í ár erum við með leikmann frá Central Connecticut State sem heitir Rick Mickens. Hann spilaði mjög vel í háskóla og var valinn besti leikmaður síns riðils og einnig besti varnarmaðurinn. Hann hefur þurft nokkurn tíma hjá okkur til þess að átta sig á liðsskipulagi og meðspilurum og sýndi hann í leik á móti Njarðvík í Reykjanesmótinu hvað hann getur. Rick er mikill skorari og getur unnið leik upp á sitt einsdæmi og er það nokkuð sem Haukaliðið kannski vantaði í fyrra en við leggjum mikið upp úr liðsspili og góðum varnarleik og í fyrra vorum við í þriðja sæti yfir fæst stig fengin á sig. Komandi tímabil á örugglega eftir að verða eitt það skemmtilegasta og jafnasta í mörg ár og eiga mörg lið eftir að berjast um efsta sætið. Að mínu mati verða það fimm lið sem eiga eftir að berjast um titilinn: Haukar, Njarðvík, Keflavík, Grindavík og KR. Tindastóll er spurningamerki og gætu þeir blandað sér í þessa baráttu. Einnig verður gaman að sjá hvernig Valur kemur út en þeir eru með nýtt lið og fyrri hluti tímabilsins gæti reynst þeim erfiður. Aldrei fyrr hefur verið jafn mikill fjöldi af góðum ungum leikmönnum og einnig reynslumeiri leikmönnum í bland í deildinni saman kominn og það eitt á eftir að gera hana skemmtilega og jafna.