ÍR er komið í Epson deildina eftir tveggja ára fjarveru og það er mikil tilhlökkun hjá okkur í Breiðholtinu að takast á við krefjandi verkefni vetrarins. Mín tilfinning er sú að Epson deildin verði óvenju jöfn og spennandi í vetur og við eigum eftir að sjá mikið af óvæntum úrslitum. Sjaldan eða aldrei hefur verið eins mikið framboð af ungum og góðum leikmönnum og nú í haust. Ljóst er að ákveðin kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í körfuboltanum, sem líka endurspeglaðist vel í vali Friðriks Inga Rúnarssonar á landsliðinu sem tók þátt í Norðurlandamótinu hérlendis í ágúst síðastliðnum. ÍR liðið er byggt upp af þeim leikmönnum sem sigruðu 1. deildina á síðasta keppnistímabili auk þess sem “gamlir” ÍR-ingar eru komnir heim á ný. Nánast allir leikmenn liðsins eru uppaldir í félaginu og tel ég það vera mikinn styrk, þar sem þeir bæði þekkja hvorn annan vel auk þess að bera hag félagsins fyrir brjósti. Ég er mjög ánægður með að hafa fengið þá leikmenn sem komu til liðs við okkur fyrir keppnistímabilið, en það eru Eiríkur Önundarson, Halldór Kristmannsson, Hreggviður Magnússon, Rúnar Sævarsson og Cedrick Holmes. Auk þessara leikmanna eru margir ungir og efnilegir strákar í okkar herbúðum sem ég þekki vel eftir að hafa starfað með þeim undanfarin tvö ár. Í þeim hópi ber helst að telja Sigurð Þorvaldsson, Ólaf Sigurðsson og Steinar Arason en þeir léku allir með Elítu-liðinu sem þátt tók í Norðurlandamótinu í ágúst. Ég er þess fullviss að ungu strákarnir eiga eftir að spjara sig vel í Epson deildinni þrátt fyrir takmarkaða reynslu, alltént verður komandi vetur mikil eldskírn fyrir þá og góð reynsla fyrir framtíðina. En það eru ekki tómir unglingar í ÍR liðinu því á meðal okkar eru leikmenn sem komnir eru á þrítugsaldurinn og á þeim mun mikið mæða í vetur. Þar á meðal eru Ásgeir “Hundur” Bachman, Björgvin Jónsson, Kristinn Harðarson og Guðni Einarsson. Óvíst er hvenær Márus Arnarson verður tilbúinn í slaginn, en þrálát bakmeiðsl hafa haldið honum utan vallar um hríð. Markmið okkar ÍR-inga á komandi keppnistímabili er að komast í 8 liða úrslitakeppni. Tíminn verður að leiða í ljós hvort það tekst en þetta er raunhæft makmið að mínu mati og við munum róa öllum árum til þess að ná því marki.